Algengar spurningar

Allir viðskiptavinir okkar eru beðnir um að skanna gild persónuskilríki sín

Fjármálafyrirtækjum ber skylda til að skanna persónuskilríki viðskiptavina sinna og vista afrit af þeim í sérstökum gagnagrunni.

Við viljum biðja alla þá sem ekki eiga skannað skilríki hjá okkur um að skanna skilríki sitt í næsta útibúi Íslandsbanka. Að öðrum kosti er hætta á að kort korthafa endurnýist ekki eða að skerðing verði á annarri þjónustu. Símaver okkar er opið alla virka daga kl. 8:30-17.

Upplýsingar um staðsetningu og opnunartíma má sjá hér.

Til gildra persónuskilríkja teljast vegabréf, ökuskírteini og nafnskírteini. Ath. að skilríki mega ekki vera útrunnin.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Samtaka fjármálafyrirtækja, www.sff.is, undir stikunni Gagnasafn í upplýsingabæklingnum Ert þú örugglega þú?

Á grundvelli laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 64/2006, hvílir sú skylda á fjármálafyrirtækjum að viðskiptavinir sanni á sér deili, þ.e. framvísi gildum persónuskilríkjum.

Aldrei gefa upp PIN-númer

PIN-númer kreditkorta á aldrei að gefa upp á netinu,í tölvupósti eða í síma og aldrei nema annaðhvort segulrönd eða örgjörvi sé lesið á afgreiðslustað.

Er síða vefverslunarinnar dulkóðuð og áreiðanleg?

Gakktu úr skugga um að vefverslunin sé á öruggu svæði.  Þetta má sjá á því að vefslóðin hefst ekki á http:// heldur https:// auk   þess sem vafrinn sýnir yfirleitt tákn (t.d. læstan smekklás) sem gefur til kynna öruggt svæði.

Einnig er hægt að skoða vefsíðuna með það í huga hvort að þér finnst hún áreiðanleg, fagmannleg, vel framsett og án stafsetningarvillna. Leitaðu einnig eftir því hvort að réttindi þín sem viðskiptavini sé einhvers staðar að finna á vefsíðunni, skilareglur, réttur þinn ef varan er gölluð osfv.

Farðu gætilega með kreditkortið sjálft og gögn þar sem kortnúmer og gildistími koma fram

Það er til lítils að gera öll tölvusamskipti örugg ef einhver kemst yfir þessar upplýsingar eftir öðrum leiðum.

Láttu kortið aldrei af hendi. Vertu alltaf viðstödd/-ur þegar að kortið er lesið eða rennt í gegnum posa/afgreiðslukerfi.

Fylgstu með færslum á yfirliti

Það er fátt sem getur komið í stað þess að fylgjast hreinlega með færslum á kortið upp á gamla mátann eða í heimabankanum frá degi til dags. Best er því að halda utan um allar kvittanir eftir kaup á vörum og bera þær síðan saman við kortayfirlitið þegar það berst.

Heimild korts, hvernig virkar hún og hvernig er hún ef ég er með fleiri en eitt kort?

Heimild korts samanstendur af einni sameiginlegri heimild eða lánaþaki sem kallast lánamörk kortsins. Öll kreditkort sem eru gefin út á sömu kennitölu aðalkorthafa falla undir ein lánamörk. Lánamörk ná til allra viðskipta, innlendrar- og erlendra verslunar, boðgreiðslna, fastra greiðslna og greiðsludreifinga.

Notkun á aðal- og aukakorthafa falla þannig undir ein lánamörk.

Hvert kort er svo einnig með sjálfstæða heimild sem í sumum tilvikum skiptist í innlenda og erlenda heimild. Möguleiki er að hafa sjálfstæða heimild kortsins lægri en lánamörk þess ef korthafi óskar eftir, en aldrei er hægt að nota kort fyrir hærri upphæð en lánamörk kortsins segir til um.

Mjög þægilegt er að nálgast upplýsingar um heimildir korta á Mínum Síðum og Kreditkorts appinu en upplýsingar um lánamörk korta er hægt að fá uppgefnar hjá þjónustuveri Kreditkorts í síma 550-1500 eða með því að senda fyrirspurn í tölvupósti á kreditkort (hjá) kreditkort (.) is.

Hver eru kortatímabil korta Kreditkorts?

Einstaklings kreditkort geta valið um þrenn kortatímabil:

Fyrsta kortatímabilið er frá 27.hvers mánaðar til og með 26. næsta mánaðar. Gjalddaginn er 2. hvers mánaðar nema ef að sá dagur ber upp á helgidag þá er gjalddaginn næsta virka dag á eftir.

Annað kortatímabilið er frá 1. til og með 31. sama mánaðar. Gjalddaginn er 3. næsta mánaðar eftir að kortatímabili lýkur nema ef að sá dagur ber upp á helgidag þá er gjalddaginn næsta virka dag á eftir. Þetta kortatímabil er eingöngu í boði sem pappírslaus viðskipti og fær korthafi reiknings sinn birtan í rafrænum skjölum netbanka.

Þriðja kortatímabilið er frá 12. hvers mánaðar til og með 11. næsta mánaðar. Gjalddaginn er 17. sama mánaðar og kortatímabili lýkur nema ef að sá dagur ber upp á helgidag þá er gjalddaginn næsta virka dag á eftir.

Kortatímabilið er alltaf það sama og því aldrei breytilegt.
Á kortatímabilum einstaklingskorta er gjalddagi jafnframt eindagi.

Fyrirtækjakortin geta valið um fimm kortatímabil:

Fyrsta kortatímabilið er frá 1. hvers mánaðar til og með 31. sama mánaðar. Gjalddaginn er þá 17. næsta mánaðar á eftir nema ef sá dagur ber upp á helgidegi, þá er gjalddaginn næsta virka dag á eftir.
Þetta kortatímabil er í boði á:

 • Business Mastercard
 • Corporate korti
 • Viðskiptakort Gull

Annað kortatímabilið er frá 1. hvers mánaðar til og með 31. sama mánaðar. Gjalddaginn er 3. næsta  mánaðar nema ef sá dagur ber upp á helgidag, þá er gjalddaginn næsta virka dag á eftir. Sé þetta kortatímabil valið er eingöngu í boði að vera í pappírslausum viðskiptum.
Þetta kortatímabil er í boði á:

 • Business Mastercard
 • Corporate korti
 • Viðskiptakort Gull


Þriðja kortatímabilið er frá 12. hvers mánaðar til og með 11. næsta mánaðar. Gjalddaginn er 17. hvers mánaðar nema ef að sá dagur ber upp á helgidag þá er gjalddaginn næsta virka dag á eftir.
Þetta kortatímabil er í boði á:

 • Business Mastercard
 • Corporate korti
 • Viðskiptakort Gull


Fjórða kortatímabilið er frá 27. hvers mánaðar til og með 26. næsta mánaðar. Gjalddaginn er 2. hvers mánaðar nema ef sá dagur ber upp á helgidag, þá er gjalddaginn næsta virka dag á eftir.

Þetta kortatímabil er í boði á:

 • Business Mastercard

Fimmta kortatímabilið er frá 1.hvers mánaðar til og með 31. sama mánaðar. Gjalddagi er 25. næsta mánaðar nema ef að sá dagur ber upp á helgidag, þá er gjalddagi næsta virka dag á eftir.
Þetta kortatímabil er í boði á:

 • Innkaupakorti
 • Innkaupakorti Ríkisins


Kortatímabilið er alltaf það sama og því aldrei breytilegt.
Á kortatímabilum fyrirtækjakorta er gjalddagi jafnframt eindagi.


Hvernig er best að fara að á ferðalögum?

Nokkur atriði sem gott er að hafa í huga þegar ferðalög standa fyrir dyrum

Látið kortið aldrei úr augsýn
Þegar verið er að greiða með kortinu skal aldrei láta það úr augsýn, heldur alltaf fylgjast með þegar afgreiðslumaðurinn útbýr úttektarmiðann. Ef hringja þarf og biðja um úttektarleyfi skuluð þið fylgja afgreiðslumanninum ef hann þarf að fara frá til að hringja, biðja hann að koma með vélina að borði ykkar á veitingastað eða fylgja honum að kassanum. Þetta er góð venja sem ágætt er að temja sér.

Gangið úr skugga um upphæðina
Gangið úr skugga um að upphæðin á seðlinum sé rétt og skýr og sömuleiðis að ávallt sé fyllt út upphæð í niðurstöðudálkinn. Stundum er reiturinn fyrir heildarfjárhæð skilinn eftir auður á veitingahúsum, en þá er þjónustufólkið að óska eftir þjórfé (tips) og er þá þitt að skrifa í reitinn.

Gætið kortsins vel
Gætið kortsins sérstaklega vel á mörkuðum, skemmtistöðum og ekki síst næturklúbbum. Mörg dæmi eru þess að korthafar hafi lent í verulegum skakkaföllum á þessum stöðum og þurft að greiða háar fjárhæðir fyrir vikið.

Geymið ekki alla fjármuni á sama stað
Þetta á við um bæði kort og aðra fjármuni. Sértu með fleiri en eitt kort skaltu ekki geyma þau á sama stað, t.d. í veski, því þá stendurðu uppi allslaus ef veskið týnist eða því er stolið.

Leyninúmer (PIN)
Leggið leyninúmerið (PIN) vel á minnið en hafið það ekki meðferðis. Ótrúlega margir skrifa leyniorðið á miða og geyma með kortinu í veskinu eða hafa það vista á símtæki eða með öðrum rafrænum hætti. Steli einhver veskinu eða símtækinu er því einfaldasta mál í heimi að taka pening út af kortinu. Leggið PIN númið á minnið og eyðið því um leið svo ekki sé möguleiki á að lesa það aftur.
Skýlið með hendinni þegar að PIN númer er staðfest við greiðslu svo ekki sé möguleiki að sjá hvaða PIN númer er slegið inn.

Hraðbankar
Varist að fara ein í hraðbanka að kvöldi eða nóttu til. Er grunur leikur á að hraðbankinn sé með einhverju hætti ekki eins og hann að sér að vera, lítur örðuvísi út eða tilfinning þín sem korthafa er ekki góð varðandi hraðbankann bendur við þér á að hætt við notkun tækisins og finna annan hraðbanka.

Tilkynnið umsvifalaust ef kort glatast eða því er stolið
Ef kort glatast eða er stolið þá ber korthafa að tilkynna það tafarlaust til Kreditkorts í síma 550 1500 eða neyðarsímann 533 1400. Þar er vakt allan sólarhringinn.

Hafið eftirfarandi upplýsingar við höndina:

 • tegund kortsins og kennitölu korthafa
 • númer vegabréfs
 • símanúmer þar sem hægt er að ná í þig
 • upplýsingar um dvalarstað svo við getum haft samband aftur

Ábyrgð korthafa
Ábyrgð korthafa á hverri úttekt er að hámarki 150 ECU, (miðast við dagsgengi) en hann ber ábyrgð á úttektum til þess tíma að hann tilkynnir Mastercard missi þess svo og ef um vítavert gáleysi hefur verið að ræða. Allar úttektir með leyninúmeri (PIN númeri) eru alfarið á ábyrgð korthafa.

Kynnið ykkur skilmála
Kynnið ykkur skilmála SOS neyðarþjónustunnar og tryggingarskilmála viðkomandi tryggingafélags vandlega áður en lagt er í ferðalag til að vita hvar þið standið ef óhapp ber að dyrum.

Haldið úttektarseðlum til haga
Geymið alla úttektarseðla og berið saman við reikninginn þegar hann berst til að ganga úr skugga um að allt sé eðlilegt.

Góða ferð!
Að sjálfsögðu vonum við að flestir komi ánægðir heim eftir farsæla og skemmtilega ferð, en við erum til þjónustu reiðubúin allan sólarhringinn, alla daga ársins, ef eitthvað bjátar á.

Gagnleg símanúmer:
Kreditkorts neyðarsími
(+354) 533 1400

VÍS
(+354) 560 5000

SOS International, Kaupmannahöfn
(+45) 7010 5055

Kortanúmer í tölvupósti

Aldrei senda kortanúmer þitt í tölvupósti. Tölvupóstur er ekki öruggur nema til sérstakra ráðstafana sé gripið og hann dulkóðaður.  Annars er alltaf sá möguleiki fyrir hendi að einhver geti lesið tölvupóstinn.

Korthafi beðinn um öryggisnúmer (CVC2 númer)

Seljandi biður um þetta öryggisnúmer þegar korthafi gefur upp kortnúmerið til staðfestingar á því að viðkomandi sé með kortið í höndunum.

Hjá Mastercard kortunum er þetta þriggja stafa tala sem er skráð aftan á kortið sjálft, í undirskriftarreitinn.

Þessi tala er eingöngu gefin upp þegar viðskiptin eiga sér stað og seljanda er óheimilt að geyma þetta númer til nota síðar meir.

Secure Code

Mastercard SecureCode hefur verið innleiddur – aukið öryggi til netverslunar.

Nú verður gerð krafa um að korthafar sem vilja versla á netinu séu með skráð farsímanúmer tengt Mastercard korti sínu. Ekki verður hægt að ljúka greiðslu nema með notkun Mastercard SecureCode hjá þeim netverslunum sem bjóða aukið öryggi með Mastercard SecureCode.

Ertu búin að uppfæra GSM númerið þitt á Mínum síðum?
Uppfærðu eða skráðu farsímanúmerið þitt á Mínum síðum og SecureCode númerið berst þér um leið og viðskipti eiga sér stað.

Mastercard SecureCode
Mastercard SecureCode gerir Mastercard korthöfum kleift að eiga öruggari viðskipti við þúsundir verslana á vefnum. 

Af hverju Mastercard SecureCode?
Þegar Mastercard korthafar skrá sitt SecureCode lykilorð þá auka þeir öryggi sitt við verslun á netinu til muna. Þetta verndar korthafa gegn misnotkun á kortinu þegar verslað er hjá seljendum sem styðja Mastercard SecureCode.

Auðvelt er fyrir Mastercard korthafa að nýta sér þjónustuna – ekki er þörf á að endurnýja kortið, ekki þarf að hala niður hugbúnaði á vefnum og engin aukakostnaður fylgir notkuninni, aðeins aukið öryggi! 

Notkun Mastercard SecureCode

Þegar korthafi verslar með Mastercard greiðslukortinu sínu í netverslun sem styður við SecureCode þjónustuna:

 1. Korthafi samþykkir pöntun á vöru og/eða þjónustu sem versla á, gefur upp kortnúmer, gildistíma og CVC2 númer líkt og áður.
 2. SecureCode gluggi frá útgefanda kortsins opnast sjálfvirkt og þar er beðið um lykilorð.
 3. Innan skamms kemur SMS í GSM síma korthafa með lykilorðinu.
 4. Korthafi skráir inn lykilorðið
 5. Innan fárra sekúndna þá er réttur notandi staðfestur og kaupin ganga í gegn. Þessi samskipti eru aðeins á milli korthafans og útgefanda kortsins og aðeins aðgengileg þeim.

Ertu búin að uppfæra GSM númerið þitt á Mínum síðum? Uppfærðu eða skráðu farsímanúmerið þitt á Mínum síðum og SecureCode númerið berst þér um leið og viðskipti eiga sér stað.

Sjá má myndaferlið hér
Spurningar og svör um MasterCard Secure Code

Skráðu þig til að fá SMS

Korthöfum Kreditkorts býðst að skrá sig í SMS þjónustu, en þá getur þú fengið skilaboð með SMS í hvert skipti sem kortið er notað án þess að segulröndin sé lesin, þ.e. kortið er notað á netinu eða í símgreiðslu. Einnig ef að kortið er komið upp í 90% af heimild sinni þá færð þú SMS og getur því óskað eftir hærri heimild áður en þú færð höfnun á kortið í versluninni. Kannist þú ekki við færsluna hefurðu strax samband við okkur og við getum gripið í taumana.

Snertilausar greiðslur

Nokkur kort Kreditkorts innihalda greiðsluvalmöguleikann snertilausa virkni. Með snertilausri virkni geta korthafar greitt fyrir vöru og þjónustu með því að bera kortið upp að kortalesaranum án snertingar og PIN númers.

Til þess að virkja snertilausa virkni þarf að nota kortið í afgreiðslutæki hjá söluaðila með því að staðfesta PIN með örgjörvalesningu. Snertilausi valmöguleikinn á kortinu er þá orðinn virkur.

Kostir

 • Snertilausar greiðslur flýta fyrir viðskiptum fyrir smáar upphæðir en eru háðar takmörkunum af öryggisástæðum
 • Hver snertilaus greiðsla getur verið að hámarki kr. 5.000
 • Samanlögð upphæð snertilausra greiðslna getur ekki verið hærri kr. 10.000 á milli þess sem kortið er notað á hefðbundin hátt og greiðsla staðfest með PIN-númeri
 • Þegar hámarksupphæð snertilausra greiðslna er náð þarf að staðfesta greiðslu með PIN-númeri til þess að hægt sé að hefja snertilausar greiðslur á ný með kortinu

Hægt er að greiða snertilaust hjá þeim söluaðilum sem hafa búnað til þess að taka á móti snertilausum greiðslum. Afgreiðslutæki sem geta tekið á móti snertilausum greiðslum eru auðkennd með merki í glugga afgreiðslutækisins.

Nú þegar hafa fjölmargir söluaðilar uppfært afgreiðslubúnað hjá sér og gera má ráð fyrir því að á næstu mánuðum muni söluaðilum sem taka á móti snertilausum greiðslum fjölga enn frekar.

Snertilausar greiðslur hafa verið að ryðja sér til rúms erlendis á undanförnum árum og hefur öryggi hennar verið margprófað.

Varastu að nota tölvur sem þú þekkir ekki/ treystir ekki fullkomlega

Það getur verið varasamt að gefa upp kortnúmer í tölvum annarra, ekki síst þar sem almenningur hefur aðgang að, t.d. á netkaffihúsum eða jafnvel í eigin tölvu á sk. heitum reitum (hot spot).  Þetta er m.a. vegna þess að í tölvum annarra hefurðu litla stjórn á því að eigandinn hafi fylgt eftirfarandi reglum:

 • Fylgstu með öryggisuppfærslum og uppfærðu reglulega Hugbúnaður og stýrikerfi tölva eru reglulega uppfærð af hálfu framleiðanda í viðleitni til að auka öryggi þeirra. Sé um nýlegan hugbúnað að ræða er í flestum tilfellum hægt að láta hugbúnað og stýrikerfi fylgjast sjálf með mikilvægum uppfærslum.
 • Settu upp veiruvarnarforrit
  Gott veiruvarnarforrit er mjög mikilvægt þegar kemur að því að verja tölvur gegn þrjótum.
 • Settu upp forrit sem verja tölvuna fyrir hnýsibúnaði (e. Anti Spyware program) Hnýsibúnaður (e. spyware) er hugbúnaður sem komið er fyrir án vitundar notanda og safnar upplýsingum um það sem framkvæmt er eða vistað á tölvunni og kemur þeim upplýsingum áfram til þess sem bjó hugbúnaðinn til. Mikilvægt er að hafa til staðar gott forrit sem ver tölvuna gegn þvílíkri óværu.
 • Settu upp eldvegg  Góður eldveggur (e. firewall) ver tölvur fyrir árásum frá öðrum tölvum og ýmsum forritum sem gætu verið að reyna að senda upplýsingar af tölvunni til þrjóta.
 • Ekki láta tölvuna geyma mikilvæg lykilorð  Vafrar bjóða gjarnan upp á að geyma lykilorð svo ekki þurfi að slá þau inn í hvert skipti sem síðan er heimsótt. Þetta getur verið mjög varasamt þegar um er að ræða heimabanka og annað sem veitir aðgang að upplýsingum um fjármál.

Við vekjum athygli á því að hugbúnaður af þessu tagi er misgóður. Leitaðu ráða hjá starfsfólki tölvuverslana um hvaða hugbúnaður hentar þér.

Varastu „vefveiðar“ í tölvupósti (e. phishing/ spoof)

„Vefveiðar“ ganga þannig fyrir sig að þú færð tölvupóst sem virðist vera frá fyrirtæki sem þú ert í viðskiptum við og ert beðin/n um að breyta skráningu þinni af einhverjum ástæðum, gjarnan af tækni- eða öryggisástæðum. Smellirðu á hlekkinn í póstinum ferðu á síðu sem líkist upprunalegu síðunni en er í raun á vegum tölvuþrjóta sem eru á höttunum eftir notandanafni og lykilorði þínu. Einfaldasta leiðin til að varast svona er að fara beint inn á vefsíðuna, en smella aldrei á hlekki í slíkum pósti.

Við hvaða upphæð er miðað við skráningu á vanskilalista Creditinfo Íslands(Lánstraust)?

Lágmarks fjárhæð vanskila þarf að ná a.m.k. 50.000 kr. að frátöldum áföllnum vöxtum og kostnaði.