Fréttir

Breyting á viðskiptaskilmálum

12. jan. 2018

Þann 12. mars n.k. munu viðskiptaskilmálar hjá Kreditkorti breytast. 

Breytingarnar lúta m.a. að því að Kreditkort er að innleiða nýtt fríðindakerfi fyrir viðskiptavini sína. Nýja fríðindakerfið mun bjóða korthöfum upp á tilboð þar sem tiltekin fyrirtæki og söluaðilar bjóða korthöfum afslátt ef verslað er á tilteknu tímabili með greiðslukorti sem tengt er við fríðindakerfið. Afsláttur sem fyrirtæki veitir verður greiddur inn á reikning korthafa til frjálsrar ráðstöfunar. Samtímis mun Kreditkort hætta að bjóða upp á að tengja kort við fríðindakerfið Points. Ákvæði um Points eru því felld út úr skilmálunum.

Tilboðum fríðindakerfisins kann að vera eingöngu beint til tiltekinna hópa af korthöfum, sem valdir eru á ópersónugreinanlegan hátt eftir tilteknum breytum, t.a.m. lýðfræðilegum, búsetu, neysluhegðun, kyni eða öðrum flokkum.

Þá snúa breytingarnar einnig að því að ákvæði um snertilausa virkni korta  eru sett inn í skilmálana. Auk þess er frestur til þess að tilkynna korthafa á vanskilaskrá styttur úr 90 dögum í 40 daga og að lokum er skerpt á ábyrgð korthafa vegna varðveislu PIN-númers.

Korthafar sem óska eftir því að kort þeirra verði ekki tengd nýja fríðindakerfinu eða óska frekari upplýsinga er vinsamlegast bent á að hafa samband við okkur í gegnum tölvupóst á netfangið kreditkort@kreditkort.is ,  í síma 550 1500 eða í útibú okkar í Ármúla 28.

Breytta viðskiptaskilmála er að finna á heimasíðu Kreditkorts .