Fréttir

Kreditkort hættir útgáfu American Express greiðslukorta

7. des. 2017

Kreditkort mun hætta útgáfu á nýjum American Express greiðslukortum frá og með 31. desember 2017. Ástæða þess er breyting á regluverki Evrópusambandsins sem gerir American Express ómögulegt að eiga samstarf með útgáfuaðilum innan ESB og EES.

Mastercard í stað American Express

Í byrjun janúar 2018 munu American Express korthafar fá send ný Mastercard kort sem munu taka við af American Express kortinu. Kreditkort mun eftir fremsta megni reyna að tryggja að korthafar verði fyrir sem minnstum óþægindum við yfirfærsluna.Nánari upplýsingar verða sendar korthöfum á næstu dögum.

Rétt er að árétta að breytingin hefur ekki áhrif á þau fríðindi sem korthafar hafa nú þegar áunnið sér í gegnum American Express kort. Breytingin mun heldur ekki hafa áhrif á móttöku American Express á Íslandi og því geta handhafar American Express notað kortin sín hjá þeim söluaðilum sem taka á móti American Express.

Spurt og svarað um breytinguna

Hvenær fæ ég nýtt kort? 

 • Ný kort verða send korthöfum í byrjun janúar 2018.

Hvernig virkja ég nýja kortið mitt? 

 • Þú getur virkjað kortið í Kreditkort appinu eða á Mínum síðum. Einnig er hægt að virkja kortið í afgreiðslu Kreditkorts.
 • Myndrænar leiðbeiningar um virkjun korts verða aðgengilegar á vef Kreditkorts.

Verður breyting á fríðindum? 

 • Útgáfa nýrra Félagamiða hættir frá og með 31. mars 2018. Síðasti söfnunardagur upp í veltuviðmið Félagamiða er 26. mars 2018. Einungis velta af Premium Icelandair American Express korti telur upp í Félagamiða. Öll velta á nýju Mastercard Premium korti telur í Viðbótarpunkta.
 • Í stað Félagamiða munu korthafar eiga möguleika á að vinna sér inn 30.000 Viðbótarpunkta gegn því að ná veltuviðmiði 4,1 milljón kr. á 12 mánaða tímabili. Sjá nánar í upplýsingum um Mastercard Premium.
 • Auka farangursheimild verður ekki í boði frá og með 31. mars 2018 fyrir ferðir sem bókaðar voru eftir 20. desember 2017. Fyrir ferðir sem bókaðar voru fyrir 20. desember 2017 þá gildir farangursheimild til 31. ágúst 2018, við biðjum þá sem hafa bókað ferð fyrir þann tíma að hafa samband við Kreditkort.

 • Að öðru leyti haldast fríðindin óbreytt.

Ég var að fá Félagamiða, hefur þetta áhrif á hann?

 • Nei, þessi breyting hefur engin áhrif á útgefna Félagamiða. Útgefnir Félagamiðar eru skráðir hjá Icelandair og halda gildistíma sínum. Við bendum viðskiptavinum á að nýta Félagamiðann innan gildistíma hans.

Hefur þessi breyting áhrif á Vildarpunktana mína? 

 • Nei, allir punktar eru skráðir hjá Icelandair Saga Club og yfirskiptingin mun ekki hafa nein áhrif á þá. Punktar sem korthafi safnar á nýja Mastercard kortinu munu bætast við þá punkta sem fyrir eru. Fyrning punkta er samkvæmt fyrningarreglum Icelandair Saga Club.

Hvaða kort fæ ég í staðinn? 

 • Handhafar Classic Icelandair American Express fá nýtt Mastercard Classic Icelandair.
 • Handhafar Premium Icelandair American Express fá nýtt Mastercard Premium Icelandair.
 • Handhafar Business Icelandair American Express fá nýtt Mastercard Business Icelandair.

Hvernig verður með árgjaldið? 

 • Það er ekkert árgjald rukkað við yfirskiptinguna. Korthafi greiðir árgjald af nýja Mastercard kortinu á sama tíma og hann hefði gert á American Express kortinu.

Hvernig verður heimildin á nýja kortinu? 

 • Það verður sama heimild á nýja Mastercard kortinu og er á American Express kortinu.

Hversu lengi get ég notað American Express kortið mitt áfram? 

 • Þú getur notað American Express kortið þitt til 5. apríl 2018, eftir það verður kortinu lokað.
 • Frá því að þú færð nýja Mastercard kortið í hendurnar hefur þú 60 daga til að virkja það. Þegar nýja kortið er virkjað lokast eldra American Express kort sjálfkrafa.

Hvað verður um boðgreiðslurnar mínar? 

 • Ef þú ert með boðgreiðslur á kortinu þínu þá þarft þú að hafa samband við þá söluaðila og óska eftir breytingu á kortaupplýsingum eftir að þú hefur virkjað nýja Mastercard kortið þitt. Kreditkort ábyrgist ekki að boðgreiðslur flytjist af American Express kortinu og yfir á nýja Mastercard kortið.

Fæ ég nýtt PIN númer? 

 • Já, nýja kortið er með nýju PIN númeri. PIN númerið er aðgengilegt á Mínum Síðum. Við minnum á að hægt er að breyta PIN númerinu í næsta hraðbanka Íslandsbanka.

Fæ ég nýtt kortanúmer? 

 • Já, nýja kortið er með nýju kortanúmeri.

Hvers vegna er ekki mynd á kortinu mínu

 • Með tilkomu auðkenningar með PIN númeri hefur þörfin fyrir myndir á greiðslukortum minnkað. Greiðslukort eru auk þess ekki löggild skilríki.

Þarf ég að skrifa nafnið mitt á kortið þó það sé engin mynd? 

 • Já, þrátt fyrir að það sé ekki mynd á kortinu þá er eftir sem áður mikilvægt að handhafi korts skrifi nafn sitt í þar til gerðan reit á bakhlið kortsins.